Archive for 30/09/2015

Jötnar um borð í Vilhelmi Þorsteinssyni

IMG_0435 (Custom)

Í dag fóru Jötnar í skemmtilega ferð. Við löbbuðum niður á bryggju og þar sáum við mjög stórt fiskveiðiskip, sem heitir Vilheim Þorsteinsson. Jón, maðurinn hennar Guggu, er kokkur um borð í þessu skipi, og hafði boðið okkur í heimsókn. Þegar við komum að skipinu sáum við að það voru pínu öldur á sjónum og það var spennandi. Jón hjálpaði okkur að labba upp stigann og við fórum beina leið inn í eldhúsið hans. Í búrinu sáum við allskonar matvæli, sumir voru fljótir að reka augun í Coco-puffs pakkann og voru alveg til í að fara á sjóinn því þar fær maður stundum Coco-puffs. Við fórum upp í brú á skipinu og fengum að sitja í skipstjórastólnum, það var mjög spennandi og sumir urðu nú hálf feimnir. Þau tóku hins vegar eftir því að það er ekkert stýri í skipinu og fannst það frekar skrítið að skipinu væri stýrt með tölvu. Þegar við vorum búin að skoða brúna, sjúkrastofuna og íþróttaherbergið fórum við í matsalinn og þá var nú heldur betur veisla. Djús, kex og íspinni – og það á miðvikudegi. Þegar við vorum að fara frá skipinu var olíubíllinn kominn og það vakti mikla athygli. Þetta var frábær ferð og við þökkum kærlega fyrir okkur. (Með þessari frétt fylgja mjög margar myndir :) )

Hópastarf 29 sept – Græni og blái hópurinn

IMG_3394

Í dag voru græni og blái hópurinn á Glaðheim saman í hópastarfi. Við byrjuðum á að klára að lesa bókina um Greppikló og allir fengu aftur að knúsa Greppiklóar bangsann. Síðan fórum við í könnunarleik, sem er leikur með verðlausan efnivið, þau skemmtu sér mjög vel og léku lengi með dótið. Hér eru myndir frá könnunarleiknum

Kisan hennar Guggu

IMG_0370 (Custom)

Þegar hann Axel Dusan var á Þrymheimi komst hann að því að Gugga kennari, ætti kisu sem heitir Aría. Hann langaði mjög mikið að fá að klappa kisunni hennar Guggu og loksins í dag varð þessi ósk að veruleika. Krakkarnir í Græna og Rauða hópnum fóru því í dag í strætóferð heim til Guggu og Olla og Iris fengu að fara með. Heima hjá Guggu tók Jón, maðurinn hennar á móti okkur og bauð okkur í bílskúrinn. Allir krakkarnir voru mjög spenntir að hitta þessa undrakisu og settust á græna teppið í bílskúrnum og biðu eftir kisunni. Aría var hins vegar ekki alveg eins spennt fyrir þessari heimsókn og hafði falið sig uppi á rúmi, sem stóð í geymslunni. Allir fengu þó á endanum að klappa henni. Jón bauð okkur upp á vatn og ávaxtabakka og leyfði krökkunum svo að prófa að pútta með golfkylfu, það gekk mjög vel og allir mjög duglegir. Þegar við opnuðum hurðina á skúrnum, þá var Aría fljót að hlaupa út – frelsinu fegin. Á leiðinni í strætó sáum við líka smiði sem voru að smíða hús og okkur þótti gaman að sjá þegar þeir voru að lyfta stóru plötunum með stóra krananum. Þetta var skemmtileg ferð og allir mjög duglegir að fylgja reglunum í gönguferðinni. Við þökkum kærlega fyrir frábærar móttökur Gugga og Jón!

Aðalfundur foreldrafélags

Aðalfundur foreldrafélags Iðavallar verður haldinn
þriðjudaginn 6. október, klukkan 20:00.

 

Á dagskrá verða venjuleg aðalfundarstörf, þar á meðal kosning tveggja nýrra stjórnarmanna.

Reynum að mæta sem flest svo hægt verði að halda áfram góðu starfi félagsins.

Með kveðju,

Urður Snædal

formaður

 

Framkvæmdir í garðinum

Þessa dagana standa yfir framkvæmdir í garðinum okkar. Sandkassinn sem var fyrir vestan hús hefur verið fjarlægður og gras verður sett í staðinn. Rennibrautin er orðin ónýt og fer í burtu og húsin færð til. Þetta rask stendur í nokkra daga.

« Older Entries