Foreldrar

Foreldrafélag Iðavallar

Við leikskólann er starfandi foreldrafélag og allir forráðamenn barna verða sjálfkrafa félagar um leið og barnið byrjar í leikskólanum. Foreldrar/forráðamenn eru beðnir um að láta leikskólastjóra vita ef þeir hafna þátttöku í félaginu. Markmið félagsins er að efla tengsl foreldra, barna og starfsfólks, auka þátttöku foreldra í starfi leikskólans og tryggja velferð barnanna sem best.

Félagið kemur að ýmsum uppákomum og ferðum sem leikskólinn skipuleggur. Einnig hefur félagið styrkt leikskólann til kaupa á ýmsum kennslugögnum og leikföngum. Helstu viðburðir sem foreldrafélagið styrkir eru jólasveinar og undirleikari á jólaballi, jólagjafir frá jólasveinum á jólaballi, Fjölskyldufjör, sveitarferð og vorhátíð. Aðalfundur félagsins er haldinn að hausti ár hvert, þar sem rædd eru málefni félagsins og stjórn þess endurnýjuð.

Í stjórninni sitja 4-8 fulltrúar foreldra/forráðamanna auk formanns. Einnig er einn starfsmaður leikskólans tengiliður við félagið. Árgjaldið hefur verið 4000 krónur síðustu ár. Foreldraráð Iðavallar Foreldraráð skipa 3-4 foreldrar/forráðamenn sem kosnir eru að hausti til eins árs í senn. Helstu hlutverk foreldraráðs eru: Fjalla um og gefa umsögn til leikskólans og fræðsluráðs um skólanámskrá og aðrar áætlanir sem varða skólahaldið. Fylgjast með framkvæmd áætlana og að þær séu kynntar foreldrum. Koma á framfæri sjónarmiðum og hugmyndum foreldra til skjólastjórnenda og fræðsluráðs. Starfa með skólastjóra að hagsmunum barnanna og leikskólans.

 

Starfsreglur foreldrafélags Iðavallar

1.gr. Foreldrafélagið heitir Foreldrafélagið við Iðavöll.

2.gr. Allir foreldrar/forráðamenn barna eru sjálfkrafa í félaginu þegar barn byrjar í leikskólanum. Foreldrar eru beðnir um að láta leikskólastjóra vita ef þeir hafna þátttöku í félaginu.

3.gr. Tilgangur félagsins er að stuðla að velferð barna og  starfsfólks á  Iðavelli og styrkja samskipti foreldra/forráða-manna barnanna og starfsfólks er þar starfar.

4.gr. Öllum félagsmönnum er frjálst að koma með tillögur til stjórnar um fræðslufundi eða upplýsingar, er varða  hina ýmsu þroskaþætti barna. Hægt er að senda tillögur eða hugmyndir á netföng stjórnarmeðlima.

5.gr. Stjórn félagsins skipa 4-8 fulltrúar, æskilegt er að hver deild leikskólans hafi að minnsta kosti einn fulltrúa.  Á aðalfundi skal kjósa fulltrúa í stjórn. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum.

6.gr. Aðalfund félagsins skal boða að hausti ár hvert.  Ef félagsmenn óska eftir fundi er stjórninni skylt að boða til  fundar. Aðalfund skal boða með viku fyrirvara.

7.gr. Félagsmenn greiði árgjald í einu lagi. Aðalfundur  ákveði árgjald hverju sinni.

8.gr. Starfsreglum þessum má aðeins breyta á aðalfundi.

Starfsreglum félagsins var síðast breytt á aðalfundi 2010.

Markmið með foreldrasamstarfi:

Að efla samstarf við foreldra

Að auka upplýsingastreymi frá leikskóla til fjölskyldu barnsins, m.a. með fjölbreyttri útgáfustarfsemi

Að stuðla að jákvæðum daglegum samskiptum m.a. til að auka upplýsingastreymi á báða bóga

Að stuðla að þátttöku foreldra í starfi leikskólans

Að gefa foreldrum aukin tækifæri til að fá innsýn í starf barnsins í leikskólanum

Að efla áherslu á sterkar hliðar barnsins og jákvæða þætti

Að gefa kennurum og foreldrum fjölbreytta möguleika á samskiptum, umræðum og samvinnu. Með því að skapa foreldrum auknar forsendur og umræðuvettvang um leikskólastarfið

Við teljum mikilvægt að góð samvinna náist strax í byrjun milli foreldra barnsins og starfsfólks þar sem gagnkvæm samvinna og trúnaður er forsenda þess að barninu líði vel. Áhersla er lögð á opinn, jákvæð, dagleg samskipti við foreldra. Lögð er áhersla á að starfsfólk leikskólans vandi framkomu sína við foreldra og virði foreldra og ákvarðanir þeirra. Daglegar upplýsingar um barnið heima og í leikskólanum eru nauðsynlegar því að oft geta lítil atvik í lífi barnsins, valdið breytingum á hegðun þess.

Foreldrar eru velkomnir í leikskólann til þess að taka þátt í því starfi sem þar fer fram, í samráði við starfsfólk. Þeir eru sérstaklega boðnir í foreldrakaffi, í einkasamtöl, á foreldrafundi o.s.frv.

Foreldrar þurfa að láta starfsfólk vita þegar barnið kemur í leikskólann og það sótt. Þetta er öryggisatriði . Látið vita ef einhver okkur ókunnugur sækir barnið. Börnum yngri en 12 ára er að jafnaði ekki heimilt að sækja barn í leikskólann, jafnvel þó um systkini sé að ræða.
Foreldrum er velkomið að hringja í leikskólann til að spyrja um barnið og eins mun starfsfólk hringja ef þörf krefur.
Ýmsir liðir hafa unnið sér fastan sess í starfinu. Má þar nefna ferðir og skemmtanir af ýmsu tagi s. s. sveitaferð, vorhátíð, jólakaffi og jólaball.
Allir foreldrar eru boðaðir í samtal við starfsfólk tvisvar sinni á ári.
Að auki eru foreldrar þeirra barna sem nýbyrjuð eru í leikskólanum, boðaðir í samtöl 2 mánuðum eftir að aðlögun er lokið.
Í þessum samtölum er rætt um líðan barnsins, hæfni þess og þroska til að takast á við verkefni, kröfur og fl..
Foreldrar geta síðan að sjálfsögðu alltaf beðið um samtal með stuttum fyrirvara ef þeim þykir þörf á.
Opin samskipti eru forsenda fyrir árangursríku foreldrasamstarfi.
Foreldrar eru hvattir til að opinna, daglegra samskipta við starfsfólk leikskólans.

Foreldraráð

Foreldraráð skipa 3 til 4 foreldrar sem kosnir eru að hausti til eins árs í senn.

Helstu hlutverk foreldraráðs eru:
Fjallar um og gefur umsögn til leikskólans og skólanefndar um skólanámskrá og aðrar áætlanir sem varða skólahaldið.
Fylgist með framkvæmd áætlana og að þær séu kynntar foreldrum.
Kemur á framfæri sjónarmiðum og hugmyndum foreldra til skólastjórnenda og skólanefndar.
Starfar með skólastjóra að hagsmunum barnanna og leikskólans.