Starfshættir

Dagskipulag:

Dagskipulagið myndar ramma um starfið í leikskólanum. Það heldur lífinu á leikskólanum í hæfilega föstum skorðum og skapar öryggi og festu sem eykur vellíðan barna og starfsfólks. Börnin vita að hverju þau ganga á degi hverjum og dagskipulagið kemur í veg fyrir óþarfa biðtíma og árekstra í samskiptum. Meiri tími gefst til uppbyggilegra leikja og starfa.

07:45 Leikskólinn opnar

08:00-08:30 Morgunverður

08:30-11:25 Nám og leikur

11:25-12:00 Hádegisverður

12:00-13:00 Hvíld

13:00-14:15 Nám og leikur

14:15-14:45 Síðdegishressing

14:45-16:00 Nám og leikur

16:15 Leikskólinn lokar

Nánari útfærslu af dagskipulagi má sjá á hverri deild.

 

Dvalartímar:

Börnin eru í allt frá 4 tímum upp í 8 tíma vistun. Að auki er hægt að kaupa fimmtán mínútna gjald, korter fyrir og korter eftir heilan klukkustund. klst. Leikskólinn reynir að koma til móts við þarfir foreldra hvað dvalartíma varðar en ekki er víst að hægt sé að koma til móts við alveg allar óskir. Virða verður þann dvalartíma sem samið er um á hverjum tíma.

Útbúnaður:

Klæðnaður barnanna þarf að vera í samræmi við veðurfar og hafa ber í huga að veður getur breyst snögglega. Merkja skal föt barnanna á greinilegan hátt, sérstaklega útiföt. Nauðsynlegt er að hafa aukafatnað og inniskó meðferðis í leikskólann. Til hægðarauka höfum við tekið saman lista um nauðsynlegan búnað sem foreldrar geta nálgast hjá deildarstjórum.

Í leikskólanum er unnið með ýmis efni og áhöld sem geta skemmt föt. Vinsamlegast gætið þess að barnið sé ekki í fötum sem ykkur er sérstaklega sárt um.

Leikskólagjöld:

Leikskólagjöld ber að greiða fyrirfram fyrir 15. hvers mánaðar.

Ef leikskólagjöld eru ekki greidd fyrir eindaga, fá forráðamenn sent ítrekunarbréf. Beri það ekki árangur er skuldin send lögfræðingi til innheimtu og í kjölfarið fylgir uppsögn á leikskólaplássi barnsins.

Uppsagnarfrestur:

Uppsagnarfrestur á leikskólaplássi er einn mánuður og miðast hann við mánaðarmót eða 15. hvers mánaðar. Skal uppsögninni komið til leikskólastjóra á þar til gerðu eyðublaði. Heimilt er að krefjast eins mánaðar greiðslu, hafi reglu um uppsagnarfrest ekki verið fylgt.
Uppsagnir vegna þeirra barna sem eru að fara í grunnskóla fylgja aðeins öðruvísi reglum. Oftast er beðið um þær uppsagnir í tengslum við sumarleyfisákvarðanir.

Veikindareglur:

Ekki er hægt að taka við veikum börnum í leikskólanum.

Ekki er tekið við börnum sem eru að veikjast. Barn smitar mest þegar það er að veikjast.

Ef barn veikist í leikskólanum, er foreldrum gert viðvart og hlúð að barninu þar til foreldrar sækja það.

Þegar barnið kemur aftur í leikskólann eftir veikindi getur það í undantekningartilvikum fengið að vera inni í 1-2 daga.

Ekki eru gefin lyf í leikskólanum nema tilkomi vottorð frá lækni um að lyfjagjöf sé nauðsynleg þann tíma sem barnið dvelur í leikskólanum.

Ýmislegt:

Nauðsynlegt er að tilkynna breytingar á högum og aðstæðum s.s. veikindi, andlát í fjölskyldu, fjarveru foreldra, nýtt heimilisfang, símanúmer, byrjun og námslok námsmanna, breytta hjúskaparstöðu. Ef vandamál koma upp varðandi leikskóladvöl barns, er nauðsynlegt að láta starfsfólk vita svo hægt sé að taka höndum saman um að finna orsök og leita lausna.

Starfsfólk leikskólans hefur rétt á 48 klukkustundum í starfsmannafundi, skipulagsfundi og námskeið á hverju starfsári. Foreldrum er tilkynnt um þessa daga með a.m.k. mánaðar fyrirvara. Eru þessir dagar allir merktir inn á dagatal skólans.

Allar upplýsingar til foreldra eru annað hvort auglýstar í forstofu eða tölvupóstur sendur til foreldra. Það er nauðsynlegt fyrir foreldra að lesa vel allar auglýsingar.
Hver deild hefur sína auglýsingatöflu og gefur út sitt eigið dagatal fyrir hvern mánuð. Á dagatölunum koma fram helstu atburðir mánaðarins sem framundan er hverju sinni.

Útivera:

Er mikilvægur þáttur í uppeldisstarfi leikskólans, þar sem grófhreyfingum og frjálsum leik er gert hátt undir höfði. Útivera er holl öllum heilbrigðum börnum.
Íslenskt veðurfar getur verið umhleypingasamt og rysjótt en við því er ekkert að gera. Þess vegna er íslenskum börnum frá blautu barnsbeini hollt að venjast veðráttunni eins og hún er.
Sumir foreldrar hafa tilhneigingu til að óska eftir inniveru fyrir börn sín í því skyni að verja þau gegn veikindum. Það er ekkert sem bendir til þess að börn sýkist frekar í útilofti en innandyra.
Börn sem dvelja langdvölum innandyra eru oft kulsælli og viðkvæmari en þau börn sem vön eru útiveru.
Mikilvægt er að börnin séu klædd í samræmi við veður og einnig að þau hafi næg aukaföt.

Opið á milli deilda:

Alltaf öðru hvoru er opið á milli deilda skólans. Þá flakka börn og starfmenn á milli. Markmiðið með þessu er að börnin læri að þekkja alla í húsinu og öðlist þannig meira öryggi. Einnig til að gera starfsfólk meira meðvitað um þá staðreynd að öll börnin eru á okkar ábyrgð, ekki bara þau sem eru á viðkomandi deild.