Markmið með foreldrasamstarfi:

Að efla samstarf við foreldra

Að auka upplýsingastreymi frá leikskóla til fjölskyldu barnsins, m.a. með fjölbreyttri útgáfustarfsemi

Að stuðla að jákvæðum daglegum samskiptum m.a. til að auka upplýsingastreymi á báða bóga

Að stuðla að þátttöku foreldra í starfi leikskólans

Að gefa foreldrum aukin tækifæri til að fá innsýn í starf barnsins í leikskólanum

Að efla áherslu á sterkar hliðar barnsins og jákvæða þætti

Að gefa kennurum og foreldrum fjölbreytta möguleika á samskiptum, umræðum og samvinnu. Með því að skapa foreldrum auknar forsendur og umræðuvettvang um leikskólastarfið

Við teljum mikilvægt að góð samvinna náist strax í byrjun milli foreldra barnsins og starfsfólks þar sem gagnkvæm samvinna og trúnaður er forsenda þess að barninu líði vel. Áhersla er lögð á opinn, jákvæð, dagleg samskipti við foreldra. Lögð er áhersla á að starfsfólk leikskólans vandi framkomu sína við foreldra og virði foreldra og ákvarðanir þeirra. Daglegar upplýsingar um barnið heima og í leikskólanum eru nauðsynlegar því að oft geta lítil atvik í lífi barnsins, valdið breytingum á hegðun þess.

Foreldrar eru velkomnir í leikskólann til þess að taka þátt í því starfi sem þar fer fram, í samráði við starfsfólk. Þeir eru sérstaklega boðnir í foreldrakaffi, í einkasamtöl, á foreldrafundi o.s.frv.

Foreldrar þurfa að láta starfsfólk vita þegar barnið kemur í leikskólann og það sótt. Þetta er öryggisatriði. Látið vita ef einhver okkur ókunnugur sækir barnið. Börnum yngri en 12 ára er að jafnaði ekki heimilt að sækja barn í leikskólann, jafnvel þó um systkini sé að ræða.
Foreldrum er velkomið að hringja í leikskólann til að spyrja um barnið og eins mun starfsfólk hringja ef þörf krefur.
Allir foreldrar eru boðaðir í samtal við starfsfólk tvisvar sinni á ári.
Að auki eru foreldrar þeirra barna sem nýbyrjuð eru í leikskólanum, boðaðir í samtöl 2 mánuðum eftir að aðlögun er lokið.
Í þessum samtölum er rætt um líðan barnsins, hæfni þess og þroska til að takast á við verkefni, kröfur og fl.
Foreldrar geta síðan að sjálfsögðu alltaf beðið um samtal með stuttum fyrirvara ef þeim þykir þörf á.
Opin samskipti eru forsenda fyrir árangursríku foreldrasamstarfi. Foreldrar eru hvattir til opinna, daglegra samskipta við starfsfólk leikskólans.


Móttökuáætlun:

Foreldrar/forráðamenn fá boð um leikskólapláss með tölvupósti frá Fræðslusviði Akureyrarbæjar. Í kjölfarið þurfa foreldrar/forráðamenn að hafa samband við leikskólann og staðfesta plássið. Skömmu áður en leikskólaganga barnsins hefst fá foreldrar/forráðamenn tölvupóst um boð í móttökusamtal í leikskólann. Móttökusamtal þarf alltaf að fara fram áður en aðlögun getur hafist. Í móttökusamtali er mælst til þess að foreldrar/forráðamenn mæti án barna. Vinnureglur leikskólans eru þær að ef um annað mál en íslensku ræðir þá fær leikskólinn aðstoð hjá túlki til þess að koma öllum upplýsingum vel og greinilega til skila. Starfsfólk gengur úr skugga um hvort nauðsynlegt sé að nota þjónustu túlka í samtölum. Móttökusamtalið fer þannig fram að starfsmaður fyllir út skjal með spurningum til foreldra/forráðamanna. Þar eru spurningar um barnið í brennidepli og leitast er við að kynnast barninu og fjölskyldu þess sem best áður en aðlögun hefst. Í samtalinu er einnig farið yfir það hver lykilpersóna fjölskyldunnar verður í aðlögunarferlinu. Lykilpersóna er ákveðinn starfsmaður sem verður tengiliður fjölskyldunnar á meðan á aðlögun stendur. Einnig eru foreldrar/forráðamenn spurðir hver muni vera til staðar meðan á aðlögun stendur og það er m.a. til þess að athuga hvort þurfi að notast við túlkaþjónustu í aðlögun. Foreldrar/forráðamenn eru þá beðnir um að láta vita ef eitthvað breytist á síðustu stundu varðandi hver kemur með barninu fyrstu dagana. Deildarstjóri sendir bréf um aðlögunarferlið til foreldra/forráðamanna í tölvupósti stuttu áður en aðlögun hefst.
móttökusamtal.2019.pdf
© 2016 - 2024 Karellen